Afmælisfyrirlestrar Siðfræðistofnunar

Í tilefni þess að á haustmisseri 2008 hóf Siðfræðistofnun sitt 20. starfsár var hleypt af stokkunum fyrirlestraröð undir yfirskriftinni "Siðfræði og samfélag". Fyrirlestrarnir voru haldnir mánaðarlega, í Þjóðarbókhlöðunni. Ellefu íslenskir heimspekingar tóku þátt í fyrirlestrarröðinni þau: Kristján Kristjánsson, Stefán Hjörleifsson, Ástríður Stefánsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Geir Sigurðsson, Salvör Nordal, Sigurður Kristinsson, Sigríður Þorgeirsdóttir, Jón Ólafsson, Jón Kalmansson og Páll Skúlason, en sá síðastnefndi hóf fyrirlestraröðina 5. september.

Dagskrá fyrirlestrarraðarinnar:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Siðfræði og samfélag

Erindi fyrirlestraraðarinnar birtust í bókinni Siðfræði og samfélag.

Hér að neðan getur að líta formála bókarinnar.

 

 

 

 


Formáli

 

Háskólaárið 2008-2009 var tuttugusta starfsár Siðfræðistofnunar, en hún var formlega stofnsett í september 1988 og hóf eiginlega starfsemi árið 1989. Í tilefni af því var efnt til fyrirlestraraðar á vegum stofnunarinnar og eiga greinarnar sem hér birtast rætur að rekja til fyrirlestranna sem þar voru fluttir. Fyrirlestraröðin bar yfirskriftina „Siðfræði og samfélag“ og stóð yfir í þrjú misseri, eða frá september 2008 til desember 2009. Fyrirlestrarnir voru haldnir síðdegis á föstudögum í Þjóðarbókhlöðunni og var gefinn góður tími bæði fyrir framsögur og umræður. Fyrirlestrarnir voru fjölsóttir og komu áheyrendur úr hinum ýmsu geirum þjóðlífsins, enda umfjöllunarefnin af sviði hagnýtrar siðfræði sem er þverfaglegt svið.
    Það andrúmsloft einkenndi þessa fyrirlestraröð minnti um margt á árdaga Siðfræðistofnunar þegar megináherslan í starfseminni var lögð á að efna með málþingum og útgáfu til umræðu um siðfræðileg málefni í samfélaginu. Á síðari árum hefur þunginn í starfsemi Siðfræðistofnunar færst yfir á rannsóknarverkefni og útgáfustarfsemin hefur í auknum mæli tekið mið af þeim. Jafnframt þessari þróun hefur Siðfræðistofnun beitt sér fyrir rannsóknartengdu framhaldsnámi í hagnýtri siðfræði þar sem lögð er áhersla á að greina og rökræða raunhæf úrlausnarefni sem mæta fólki í starfi. Jafnframt er fjallað um fagmennsku og siðareglur starfsgreina en Siðfræðistofnun hefur látið sig slík verkefni varða frá upphafi. Nú gefst kostur á að leggja stund á meistaranám á þremur kjörsviðum í hagnýtri siðfræði innan námsbrautar í heimspeki við Háskóla Íslands: heilbrigðist- og lífsiðfræði, umhverfis- og náttúrusiðfræði og viðskiptasiðfræði. Þessi þrjú kjörsvið endurspegla þær áherslur sem hafa alla jafna verið í starfsemi Siðfræðistofnunar en stærstu rannsóknarverkefni hennar hafa tengst heilbrigðismálulm og umhverfismálum.
    Tólf höfundar eiga greinar í þessari bók og eru langflestir af þeim heimspekingar, en þrír hafa menntun bæði í heimspeki og læknisfræði. Það er því varla tilviljun að umfjöllun um siðferðileg álitaefni tengd heilbrigðismálum er alláberandi í ritinu. Höfundum var þó algerlega í sjálfvald sett hvaða efni þeir tækju til umfjöllunar undir hinni almennu yfirskrift „Siðfræði og samfélag“. Þau Páll Skúlason og Sigríður Þorgeirsdóttir kusu að ræða gagngert um tengsl siðfræði og samfélags og meta gagnsemi siðfræðinnar. Kristján Kristjánsson og Geir Sigurðsson ræða hvor með sínum hætti um austrænar hugmyndir um sjálf og siðferði og bera þær saman við vestrænar hugmyndir. Jón Á. Kalmansson greinir athygli sem siðfræðilegt hugtak og tekur raunhæf skýringardæmi úr samtímanum. Fimm höfundar, þau Stefán Hjörleifsson og Linn Getz, Ástríður Stefánsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Sigurður Kristinsson, ræða ólík efni tengd heilbrigðisvísindum og samspil þeirra við siðfræði, stjórnmál og samfélag. Loks gera þau Jón Ólafsson og Salvör Nordal að umtalsefni skilning á umburðarlyndi og forsendur þess í frjálslyndu samfélagi.
    Þessi bók er liður í rannsóknarverkefni sem Siðfræðistofnun hóf með styrk frá Kristnihátíðarsjóði 2001 undir yfirheitinu Siðfræði og samtími og er bókin gefin út í ritröð undir sama heiti. Eins og yfirheitið ber með sér tekur verkefnið á brýnum siðferðilegum vandamálum samtímans. Markmið verkefnisins er að efla umræðu í samfélaginu og gefa út efni sem getur nýst almenning jafnt sem fagfólk og verið gagnlegt við siðfræðikennslu. Það er von okkar að bókin Siðfræði og samfélag þjóni því markmiði vel. Höfundum og starfsmönnum Háskólaútgáfunnar, einkum Sigríði Harðardóttur, er þökkuð góð samvinna.

                                                                                                                 Ritstjórar

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is