Andspænis dauðanum, Hugvísindaþing 2016

Málstofa Siðfræðistofnunar á hugvísindaþingi 2016 "Andspænis dauðanum" fór fram laugardaginn 12. mars kl 13:00-16:30

Staðsetning: Aðalbygging Háskóla Íslands stofa 225

Fjallað var um dauðann, ákvarðanir við lífslok og líknardráp út frá heimspekilegu, siðfræðilegu, læknisfræðilegu og guðfræðilegu sjónarhorni. Í fyrsta fyrirlestrinum fjallaði Salvör um ólík hugtök í umræðunni og gerði grein fyrir þeim siðferðilegu álitaefnum sem tengjast ákvörðunum við lífslok. Í öðrum fyrirlestri beindi Valgerður sjónum sérstaklega að líknarmeðferð og líknarþjónustu og þeim áherslum og hugmyndafræði sem þar liggur til grundvallar. Guðmundur Heiðar fjallaði um það hvernig líknardráp hefur þróast í nokkrum löndum í Evrópu og úrskurðum Mannréttindadómstóls Evrópu. Ástríður Stefánsdóttir velti fyrir sér hvað það merki að segja að markmið lækna sé að hindra ótímabæran dauða og stuðla að góðu andláti. Jón fjallaði um það hvernig dauðinn eða viðurkenning á dauðanum hefur verið tengd við siðferðilega þekkingu eða sjálfsskilning og síðasta erindinu fjallaði Guðlaug Helga um andlega líðan þeirra sem eru dauðvona.

Málstofustjóri: Salvör Nordal

 

Fyrirlesarar og titlar erinda:

  • Salvör Nordal, lektor og forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Líknardráp sem siðferðilegt álitaefni  

  • Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir: Hvað er líknandi dauði?

  • Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við HA: Um lög og dauða

  • Jón Kalmansson nýdoktor: Dauðinn sem þekking

  • Ástríður Stefánsdóttir dósent: Hvert er hlutverk læknisins gagnvart dauðanum?

  • Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sjúkrahúsprestur: Að horfast í augu við dauðann. Andleg líðan og líknarmeðferð

 

Úrdrættir erinda:

Salvör Nordal, lektor og forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Líknardráp sem siðferðilegt álitaefni

Fjallað var um það hvað átt er við með líknardrápi og helstu rök fyrir því að leyfa það. Siðfræðileg rök með og á móti líknardrápi.

Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir: Hvað er líknandi dauði?

Líknandi dauði er eitt þeirra hugtaka sem fram hefur komið í umræðu í tengslum við lífslok.

Skilgreining á hugtökum og notkun þeirra er mjög mikilvæg í þessu samhengi. Í erindinu var sjónum beint sérstaklega að líknarmeðferð og líknarþjónustu og þeim áherslum og hugmyndafræði sem þar liggur til grundvallar.

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við HA: Um lög og dauða

Í fyrirlestrinum var fjallað um samband laga og siðferðis, um löggjöf sem varðar dauða á Íslandi, um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða það efni, um dóm Hæstaréttar Kanada frá síðasta ári um rétt til aðstoðar við sjálfsvíg. Vikið verður að löggjöf í löndum Evrópu sem heimila líknardráp og aðstoð við sjálfsvíg.

Jón Kalmansson nýdoktor: Dauðinn sem þekking

Dauðinn getur umfram flest annað vakið með okkur undarleikatilfinningu - þær hugrenningar að hversdagslegar skoðanir og hugtök geti ekki gert okkur veruleikann fyllilega skiljanlegan. Jafnframt hefur dauðinn, eða viðurkenning á dauðanum, verið tengd við siðferðilega þekkingu eða lífsskilning. Til dæmis geti það að viðurkenna og sættast við dauðann gefið manni dýpri skilning á lífi annarra. Í erindinu voru slíkar hugmyndir ræddar út frá hugmyndinni um tengsl siðvitsins og mannlegrar berskjöldunar.

Ástríður Stefánsdóttir dósent: Hvert er hlutverk læknisins gagnvart dauðanum?

Eitt af markmiðum læknisins í starfi er að hindra ótímabæran dauða og stuðla að góðu andláti. Í þessu erindi var varpað ljósi á hvað þessi yfirlýsing merkir, hvernig hún tengist grundvallarhugmyndinni um markmið læknisfræðinnar og jafnframt hvers vegna er hún sérstaklega mikilvæg einmitt í dag.

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sjúkrahúsprestur: Að horfast í augu við dauðann. Andleg líðan og líknarmeðferð

Fólk sem er með langt genginn ólæknandi sjúkdóm og skertar lífslíkur stendur frammi fyrir miklum breytingum. Áherslur verða aðrar og dauðinn sem ein af staðreyndum lífsins kemur óhjákvæmilega nær en ella. Í líknarmeðferð er heildstæð nálgun lögð til grundvallar þar sem andleg líðan og andleg velferð skiptir ekki síður máli en önnur sérhæfð meðferð sjúkdómseinkenna. Cicely Saunders einn af megin frumkvöðlum í nútíma líknarmeðferð kynnti til sögunnar hugtakið alverk þar sem verkur er álitinn hafa margs konar birtingarmyndir sem kemur fram í líkamlegum, sálrænum, félagslegum og andlegum einkennum. Skilgreining Alþjóðheilbrigðismálastofnunar-innar á líknarmeðferð undirstrikar þennan skilning. Í erindinu verður rætt um andlega líðan fólks sem þiggur líknarmeðferð og mikilvægi þess að andlegum þörfum sé sinnt. Stuðst var við dæmi úr klínísku starfi og rannsóknum sem hafa klínískt vægi.

 

Fyrirlestraglærur erinda:

Líknardráp sem siðferðilegt álitaefni - Salvör Nordal

Hvað er líknandi dauði? - Valgerður Sigurðardóttir

Um lög og dauða - Guðmundur Heiðar Frímannsson

Hvert er hlutverk læknisins gagnvart dauðanum? - Ástríður Stefánsdóttir

Að horfast í augu við dauðann. Andleg líðan og líknarmeðferð - Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir 

 

Ljósmyndir frá málstofnunni má skoða hér

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is