Geðshræringar, skapgerð, sjálf og frelsi: Ráðstefna um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar

 

Staður: Háskóli Íslands, stofa 101 í Odda. Tími: 29. apríl 2017

Ráðstefna var haldin við Háskóla Íslands um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar prófessors við Háskólann í Birmingham þann 29. apríl 2017. Fjallað var um ólíka þætti í heimspeki Kristjáns, efni sem tengjast henni eða efni í siðfræði eins og fagmennsku eða siðfræði menntunar.

Kristján hefur skrifað mest um siðfræði frá því að hann hóf störf sem lektor í heimspeki við Háskólann á Akureyri árið 1991 og verið mjög afkastamikill. Hann hefur gefið út þrjú ritgerðasöfn á íslensku og sjö bækur á ensku. Fyrsta bók hans á ensku fjallaði um stjórnmálaheimspeki og sú nýjasta um skapgerðamennt Aristótelesar. Fjórar þeirra eru um geðshræringar og tilfinningar með ólíkum hætti. Ein þeirra segir frá jákvæðri sálfræði og setur  hann fram hófsama gagnrýni á hana.

Í heimspeki Kristjáns eru margir þættir. Hann skrifaði snemma mikilvæga ritgerð um nytjastefnu á íslensku og síðar beitti hann nytjastefnu til að fjalla um geðshræringar. Hluthyggja hefur verið þáttur í heimspeki Kristjáns frá upphafi og hann hefur alltaf beitt þeirri aðferð í heimspeki sem hefur verið nefnd rökgreining. Á seinni árum hefur hann mest fjallað um Aristóteles og kenningu hans um dygðir og skapgerð. Það er óhætt að segja að hann sé orðinn leiðandi í heiminum í túlkun skapgerðarkenningar Aristótelesar með nýjustu bók sinni frá árinu 2015.

Ráðstefnan var haldin á vegum Siðfræðistofnunar, Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviðs.

Auk fyrirlestra voru sýnd veggspjöld Kirstínar Þórarinsdóttir: "Þróun persónumiðaðs heilsufarsmats með fyrirbærafræðilegri nálgun í endurhæfingarhjúkrun" og "Persónumiðuð þátttaka í heilbrigðisþjónustu: Hugtakagreining"

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér

Veggspjald sem var gert að tilefni ráðstefnunnar má nálgast hér

Ljósmyndir frá ráðstefnunni má skoða hér

Upptökur frá ráðstefnunni má skoða hér

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is