Minning

 

Páll Skúlason prófessor í heimspeki og stofnandi Siðfræðistofnunar lést 22. apríl síðast liðinn. Hann hóf störf við Háskóla Íslands árið 1971 og byggði upp heimspekikennslu við Háskóla Íslands ásamt þeim Þorsteini Gylfasyni og Mikael M. Karlssyni. Páll var formaður stjórnar Siðfræðistofnunar frá því hún var stofnuð og þar til hann var kjörinn rektor Háskóla Íslands árið 1997.

Páll var frjór og afkastamikill höfundur fjölda bóka, rita og greina. Á sviði siðfræðinnar var m.a. tilvistar- náttúru- og stjórmálasiðfræði honum hugleikin. Meðal rita hans um siðfræði má nefna; Um siðfræði og stjórnmál (1990), Siðfræði (1990), ), Sjö siðfræðifyrirlestrar (1991), Umhverfing (1998) og Náttúrupælingar (2014).

Á heimasíðu Páls ná nálgast heildaryfirlit yfir feril hans auk þess sem þar eru aðgengilegar greinar, útvarpsþættir o.fl. eftir hann.

 

Í minningu Páls Skúlasonar

 

Mér virðist að yfirlætislaus framkoma Páls endurspeglist í þeirri afstöðu hans að heimspekileg yfirvegun sé sprottin af hugsun sem finna má meðal fólks á vettvangi hversdagsins. Þetta kann að vera ein meginástæða þess hve Páli var mikið í mun að rækta jarðveginn fyrir almenna heimspeki og breiða út fagnaðarerindið fyrir almenning. (Greinin í heild sinni)

-Vilhjálmur Árnason

 

Páll var persónulegur heimspekingur. Hann smíðaði sínar eigin kenningar og gerði sér far um að nálgast heimspekileg vandamál út frá eigin hugsun. Honum var ætíð umhugað um að koma heimspekinni á framfæri við almenning og sýna hve miklu það skipti hvernig við hugsum um heiminn og öll okkar viðfangsefni. Hann hafði því sífellt vakandi auga fyrir því hvernig heimspekin og heimspekingar gætu lagt íslensku samfélagi gott til og hvatti okkur til dáða. (Greinin í heild sinni)

-Salvör Nordal

 

Páll bjó ekki í fílabeinsturni. Hann hvatti og leiðbeindi íslensku þjóðinni, þ.á.m. nemendum sínum og samstarfsmönnum, til að vera trú eigin menningu og siðferði. Fáir nutu meira trausts og aðdáunar fyrir hugsjónir sínar en Páll, þótt hann hafi e.t.v. ekki náð eins miklum árangri í þeim málum og hann vonaðist til. Andrúmsloft gráðugrar efnishyggju og ólaga virðist enn vera að eyða landinu. Samt sem áður var hann í augum margra samviska þjóðarinnar um langt skeið. (Greinin í heild sinni)

-Mikael M. Karlsson

 

Á sorgarstundu minnist ég Páls Skúlasonar umfram allt með þakklæti fyrir þau djúpu og góðu áhrif sem hann hafði á líf mitt sem kennari, mentor, vinur og samverkamaður. Hann lifir áfram í verkum sínum sem kennari, fræðimaður og stjórnandi, en söknuðurinn er sár eftir einstakri persónu. Fjölskyldu Páls votta ég mína innilegustu samúð.                      (Greinin í heild sinni)

-Sigurður Kristinsson

 

Það er einkennilegt að hugsa sér heimspekina við Háskóla Íslands án Páls Skúlasonar og í vissum skilningi er það ekki hægt. Páll var óþreytandi í áhuga sínum á heimspekinni, honum var það kappsmál að hefja skynsamlega rökræðu upp yfir dægurmálin, hann var alltaf óragur við að varpa fram hugmyndum til umræðu og hafði óbilandi trú á gildi rökræðu og heimspekilegrar hugsunar, jafnt fyrir velferð hvers einstaklings sem almannahag. (Greinin í heild sinni)

- Námsbraut í heimspeki við Háskóla Íslands: Björn, Erlendur, Eyja, Gunnar, Henry, Mikael, Róbert, Salvör, Sigríður, Svavar Hrafn og Vilhjálmur

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is