Diplómanám á meistarastigi í gagnrýninni hugsun og siðfræði

Diplómanám á meistarastigi í gagnrýninni hugsun og siðfræði er ætlað öllum þeim sem vilja efla dómgreind sína, færni í gagnrýninni hugsun og siðferðisvitund.

Markmið námsins eru:

  • Þjálfun í gagnrýninni hugsun og að gera skýra og rökstudda grein fyrir skoðunum sínum í mæltu og rituðu máli;
  • almenn þekking og skilningur á aðferðum og kenningum í heimspekilegri og hagnýttri siðfræði;
  • færni til þess að taka rökstudda afstöðu til siðferðilegra álitamála.

Námið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Nemendur geta valið við hvorn skólann þeir kjósa að ljúka prófi. Það er 30 einingar (ECTS). Inntökuskilyrði er að nemandi hafi lokið BA-, BEd- eða BS-prófi eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn (7,25). Ljúka þarf 30 einingum fyrir lokapróf og byggist námið upp á fjórum skyldunámskeiðum. Ekki er gert ráð fyrir lokaverkefni.

Skilgreind lengd námsleiðarinnar er eitt ár:

Haust

[HÍ] Hagnýtt siðfræði 10e  [HA] Nútímahugtakið
[HÍ] Gagnrýnin hugsun 6e (Nemendur HA taka námskeiðið í fjarnámi)

Vor

[HÍ] Starfstengd siðfræði 6e [HA] Heimspeki menntunar
[HÍ] Inngangur að siðfræði 8e [HA] Inngangur að siðfræði

Námsleiðin er helst ætluð fólki sem er þegar í starfi og vill bæta við þekkingu sína og færni. Henni er ætlað að koma til móts við auknar kröfur um færni í gagnrýninni hugsun og að rökstyðja mál sitt, meðal annars þegar siðferðileg álitamál koma upp. Þekking og reynsla nemenda verður nýtt til samræðu um þau álitamál sem koma upp í samfélaginu.

Námið mun til dæmis gagnast starfsfólki á eftirfarandi sviðum:

  • Í stjórnsýslu þar sem ákvarðanataka um almannahagsmuni fer fram: Ekki síst í ljósi þess að ýmsir opinberir aðilar hafa sett sér markmið um eflingu þessara þátta í starfi sínu, s.s. með skráningu siðareglna.
  • Í viðskipta- og fjármálastarfsemi: Fyrirtæki innan þess geira hafa sett sér framtíðarsýn um aukna gagnrýni, samfélagshugsun og siðferðilega starfshætti.
  • Í skólum: Nýjar áherslur í námskrám grunn- og framhaldsskóla gera ráð fyrir að kennarar efli gagnrýna hugsun hjá nemendum og hæfni þeirra til að taka rökstudda afstöðu til siðferðilegra álitamála.

Námið getur einnig nýst fólki af öðrum sviðum, s.s. starfsfólki opinberra stofnanna, þjónustu- og iðnfyrirtækja, félagasamtaka, og sjálfstætt starfandi sérfræðingum.

Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hlutu hvata- eða þróunarstyrk í samstarfi opinberu háskólanna til að undirbúa þetta diplómanám á meistarastigi.

Nánari upplýsingar um viðbótardiplóma í gagnrýnni hugsun og siðfræði í kennsluskrá Háskóla Íslands.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is