Útgáfa

Árangur af rannsóknarstarfi og ráðstefnuhaldi á vegum Siðfræðistofnunar hefur meðal annar komið fram í öflugri bókaútgáfu.

 

Siðfræði og Samtími

Ritröðinni er ætlað að vera vettvangur fyrir umræðu um brýn siðferðileg álitamál í samtíma okkar. Ritröðin er styrkt af Kristnihátíðarsjóði.

 

Siðfræði og Samfélag

Í bókinni fjalla tólf höfundar um ýmis siðfræðileg álitamál samtímans. Greinarnar eru byggðar á fyrirlestrum sem haldnir voru í tilefni tuttugasta starfsárs Siðfræðistofnunar.

Umfjöllunarefnið er fjölbreytt. Páll Skúlason og Sigríður Þorgeirsdóttir ræða tengsl siðfræði og samfélags og meta erindi siðfræðinnar við samtímann. Kristján Kristjánsson og Geir Sigurðsson bera austrænar hugmyndir um sjálf og siðferði saman við vestrænar hugmyndir. Ástríður Stefánsdóttir fjallar um ábyrgð einstaklinga og samfélags á offitu, Sigurður Kristinsson ræðir upplýst samþykki fyrir læknismeðferð og þátttöku í rannsóknum, og þau Stefán Hjörleifsson, Linn Getz og Vilhjálmur Árnason ræða samspil heilbrigðisvísinda við athygli sem siðfræðilegt hugtak og þau Jón Ólafsson og Salvör Nordal gera að umtalsefni skilning á umburðarlyndi og forsendur þess í frjálslyndu samfélagi.

Ritstjórar: Salvör Nordal og Vilhjálmur Árnason

Útgáfuár: 2011 | Blaðsíðufjöldi: 247 | ISBN: 978-9979-54-895-9 | Verð: 890 kr.

Kaupa/Buy

 

 

Velferð barna: Gildismat og ábyrgð samfélagaVelferð barna

Í bókinni fjalla þrettán höfundar á sviði félagsráðgjafar, guðfræði, heimspeki, næringarfræði, sálfræði og uppeldisfræði um siðferðileg álitamál tengd börnum og skilyrði þess að þeim geti farnast vel. Í brennidepli er ráðandi gildismat í neyslusamfélagi nútímans og áhrif þess á velferð barna. Rætt er um foreldrahlutverkið, merkingu og gildi frelsis í uppeldi barna og um þá ábyrgð sem við berum sameiginlega á uppeldisskilyrðum þeirra og hvernig þau mótast. Jafnframt er hugað að réttindum barna og líkamlegri og andlegri næringu þeirra. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, ritar inngangsorð.

Ritstjórar: Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason

Útgáfuár: 2011 | Blaðsíðufjöldi: 181 | ISBN:  978-9979-54-895-9 | Verð: 3.510 kr.

Kaupa/Buy

 

Persónuvernd í upplýsingasamfélagi

Hvernig fylgjast fyrirtæki og stofnanir með starfsmönnum sínum? Hvaða áhrif hefur aukið rafrænt eftirlit á afköst og vinnugleði fólks? Hver hefur aðgang að viðkvæmum heilbrigðisupplýsingum? Hvernig getur löggjafinn tryggt persónulegar upplýsingar í gagnagrunnum?

Í bókinnier meðal annars fjallað um þessar spurningar og reynt að draga upp mynd af möguleikum eftirlits í íslensku samfélagi og sýna hvers konar persónuupplýsingum er safnað. Hér er meðal annars að finna greinar um hugtakið persónuvernd, fjallað um notkun lífsýna á vinnustöðum, rafrænt eftirlit á vinnumarkaði og eftirlits-myndavélar á götum úti. Þá er fjallað sérstaklega um notkun gagnagrunna í heilbrigðisrann-sóknum og rætt um hvernig tryggja megi öryggi upplýsinga út frá lögum um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Höfundar greina í bókinni eru félagsfræðingarnir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Margrét Lilja Guðmundsdóttir og Lára Rún Sigurvinsdóttir; Ingunn Ólafsdóttir, stjórnmálafræðingur, Hörður Helgason, lögfræðingur og Salvör Nordal, siðfræðingur.

Ritstjóri: Salvör Nordal

Útgáfuár: 2008 | Blaðsíðufjöldi: 142 | ISBN: 978-9979-54-792-1 | Verð: 2.691 kr.

Kaupa/Buy

 

sjukdomavaeding_forsida.jpgSjúkdómsvæðing

Læknavísindum tuttugustu aldar er gjarnan lýst sem óslitinni sigurgöngu. Aukinn skilningur á eðli sjúkdóma, bætt tækni og ný lyf hafa gert læknum kleift að liðsinna margfalt fleira fólki en áður. Þrátt fyrir þessar óumdeildu framfarir læknavísindanna kann vöxtur heilbrigðiskerfisins að valda skaða í sumum tilvikum. Lækningar geta haft óbeinar aukaverkanir sem birtast á allt öðrum sviðum en þeim sem lækningarnar beinast að. Þetta er inntak hugmyndarinnar um sjúkdómsvæðingu sem fjallað er um í bókinni. Hugmyndin er sú að lækningar geti valdið tjóni sem bitnar á öðrum en þeim sem lækningarnar beinast að og að þetta tjón sé óháð og eðlisólíkt því gagni sem sjúklingar hafa af lækningunum.

Ritstjórar: Ólafur Páll Jónsson og Andrea Ósk Jónsdóttir

Útgáfuár: 2004 | Blaðsíðufjöldi: 76 | ISBN: 978-9979-54-598-9 | Verð: 620 kr.

Kaupa/Buy

 

sjalfraedi_forsida.jpgSjálfræði og aldraðir

Flest teljum við sjálfsagt að ráða því hvernig heimili okkar lítur út, hvernig við erum klædd eða hvenær við förum í bað. En þegar fólk þarf að flytja á öldrunarstofnanir getur þrengt mjög að þessum hversdagslegu valkostum. Markmið höfunda er að kanna hvernig þessu er háttað hérlendis.
Í bókinni eru birtar niðurstöður spurningakönnunar sem gerð var á fimm íslenskum öldrunarstofnunum. Í könnuninni er reynt að varpa ljósi á hversu mikil áhrif íbúarnir hafa á sitt daglega líf og umhverfi. Höfundarnir túlka niðurstöður könnunarinnar og telja hana sýna ótvírætt að íbúar öldrunarstofnana búi við skert sjálfræði um athafnir daglegs lífs. Þeir færa jafnframt rök fyrir mikilvægi þess að að standa betur vörð um sjálfræði vistmanna en nú er gert.

Vilhjálmur fjallar í inngangskafla um sjálfræðishugtakið, merkingu þess og mikilvægi í ljósi aðstæðna aldraðra á vistheimilum. Ástríður skrifar kafla um íslensk lög um málefni aldraðra og skoðar þau í ljósi sjálfræðis.

Rit þetta veitir nýja innsýn í veruleika íslenskra öldrunarheimila og vekur brýnar spurningar um það hvernig við getum best stuðlað að virðingu þeirra sem eiga þar heima.

Höfundar: Ástríður Stefánsdóttur og Vilhjálmur Árnason prófessor.

Útgáfuár: 2004 | Blaðsíðufjöldi: 196 | ISBN: 978-9979-54-569-9 | Verð: 2.365 kr.

Kaupa/Buy

 

 

Hugsað með...

Hugsað með ... er ritröð Siðfræðistofnunar og Heimspekistofnunar um heimspekinga.

 

Hugsað með Vilhjálmi

Í tilefni sextugsafmælis Vilhjálms Árnasonar í janúar 2013 var haldin viðamikil ráðstefna honum til heiðurs þar sem bæði erlendir og innlendir samstarfsmenn Vilhjálms fjölluðu um heimspeki hans og hugðarefni. Hér er að finna 13 greinar byggðar á erindum sem haldin voru á ráðstefnunni. Vilhjálmur Árnason hefur kennt heimspeki við Háskóla Íslands frá árinu 1982 og verið afkastamikill kennari og fræðimaður, ekki síst á sviði stjórnmálaheimspeki og siðfræði, og er vel metinn á alþjóðlegum vettvangi fyrir skrif sín um lísiðfræði. Bók hans Siðfræði lífs og dauða, sem kom fyrst út árið 1993, er brautryðjandaverk og hefur verið undirstaða allrar kennslu í heilbrigðis og lífsiðfræði hér á landi. Þá gaf hann út árið 2008 yfirgripsmikið verk um helstu kenningar í siðfræði, Farsælt líf, réttlátt samfélag. Vilhjálmur hefur ætíð tekið virkan þátt í samfélagsumræðu um margvísleg siðferðileg álitaefni og lýðræði, ekki síst í kjölfar bankahrunsins en hann var formaður vinnuhóps um siðferði og starfshætti sem starfaði með rannsóknarnefnd Alþingis.

Ritstjórar: Salvör Nordal og Róbert H. Haraldsson

Útgáfuár: 2015 | Blaðsíðufjöldi: 240 | ISBN: 9935230627   | Verð: 4.395 kr.

Kaupa/Buy

 

Hugsað með PlatoniPlaton

Sagt hefur verið um evrópska heimspeki að hún væri runa af neðanmálsgreinum við Platon. Íslenskir heimspekingar hafa lagt sitt af mörkum til þassara neðanmálsgreina, bæði með glímu sinni við þau viðfangsefni sem Platon gerði heimspekileg og með glímu sinni við Platon sjálfan. Þetta rit hefur að geyma 14 ritgerðir um verk Platons, viðfangsefni og áhrif. Flest frægustu verk hans ber á góma, allt frá Málsvörninni og Ríkinu til Laganna. Fyrsta ritgerðin er sérstök, eftir Grím Thomsen, samin 1897. Hann býður lesendum upp á túlkun sína, byggða á lestri grískra frumtexta, ,eða kjarnyrtu og háfleygu málfari. Aðrir höfundar eru; Svavar Hrafn Svarvarson Björn Þorsteinsson, Eiríkur Smári Sigurðarson, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Eyjólfur Kjalar Emilsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Gunnar Harðarson, Henry Alexander Henrysson, Páll Skúlason, Róbert H. Haraldsson, Róbert Jack, Sigríður Þorgeirsdóttir, Svavar Hrafn Svavarsson og Vilhjálmur Árnason.

Ritstjóri: Svavar Hrafn Svavarson

Útgáfuár: 2014 | Blaðsíðufjöldi: 250 | ISBN: 9935230252   | Verð: 3.995 kr.

Kaupa/Buy

 

Hugsað með MillHugsað_með_Mill-net.jpg

Þess var víða minnst árið 2006 að tvöhundruð ár voru liðin frá fæðingu heimspekingsins Johns Stuart Mill. Íslenskir heimspekingar minntust afmælisins með málþingum bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Hugsað með Mill er að finna 10 ritgerðir sem byggðar eru á erindum sem haldin voru á málþingunum. Óhætt er að fullyrða að Mill hafi haft mikil áhrif á íslenska heimspeki og stjórnmálaumræðu hér á landi. Þegar á 19. öld var Mill lesinn af forystumönnum íslensks samfélags og verk hans kynnt íslenskum lesendum. Á síðari árum hafa margir íslenskir heimspekingar fjallað um einstök verk hans eða hugðarefni. Þrjár af merkustu bókum hans, Frelsið, Nytjastefnan og Kúgun kvenna hafa verið þýddar á íslensku og hafa hugmyndir hans verið Íslendingum handgengnar. Í Hugsað með Mill er meðal annars að finna greinar um efni þessara bóka og eru höfundar þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, Gunnar Harðarson, Kristján Kristjánsson, Mikael M. Karlsson, Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal, Sigríður Þorgeirsdóttir, Sigurður Kristinsson, Svavar Hrafn Svavarsson og Vilhjálmur Árnason

Ritstjórar: Salvör Nordal, Róbert H. Haraldsson og Vilhjálmur Árnason

Útgáfuár: 2007 | Blaðsíðufjöldi: 166 | ISBN:  9979547723 | Verð: 2.880 kr.

Kaupa/Buy

 

Hugsað með PáliPáll

Hugsað með Páli hefur að geyma 16 ritgerðir sem fjalla með einum eða öðrum hætti um heimspeki Páls Skúlasonar og hugðarefni. Hér má finna greinar um siðfræði, gagnrýna hugsun, stjórnmál, náttúru, tákn, hamingju og kristna trú. Bókin er afrakstur Pálsstefnu, málþings sam haldið var til heiðurs Páli sextugum í Hátíðasal Háskóla Íslands 8. og 9. apríl 2005.

Páll Skúlason hefur kennt við heimspekiskor frá því henni var komið á fót árið 1971 og er því einn þeirra sem hefur mótað skorina frá upphafi og verið þar mikils metinn kennari. Hann var skipaður prófessor árið 1975 og hafði upp frá því umsjón með kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum. Páll er afkastamikill fræðimaður og um það vitnar fjöldi útgefinna rita um fjölbreytt heimspekileg viðfangsefni. Páll var kjörinn rektor Háskóla Íslands árið 1997 og gengdi því starfi í átta ár.

Ritstjórar: Rórbert H. Haraldsson og Vilhjálmur Árnason

Útgáfuár: 2005 | Blaðsíðufjöldi: 207 | ISBN:  9979546522 | Verð: 2.950 kr.

Kaupa/Buy

 

 

 

Þýdd rit

Leitin

Leitin að tilgangi lífsins

Bókin Leitin að tilgangi lífsins, sem verið hefur uppseld hjá útgefanda um nokkurt skeið, hefur verið gefin út aftur með breyttu útliti en bókin koma út á vegum Siðfræðistofnunar og Háskólaútgáfunnar í þýðingu Hólmfríðar Gunnarsdóttur árið 1996. Höfundur bókarinnar Viktor E. Frankl (1905-1997) var austurrískur geðlæknir. Hann var upphafsmaður kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía eða tilgangsmeðferð. Þar er lögð áhersla á að í lífi sérhvers manns sé einstakur tilgangur sem hver og einn verði að finna fyrir sjálfan sig. Frankl sat í fangabúðum nasista og notar reynslu sína úr fangabúðunum sem undirstöður kenninga sinna. Frásögnin úr fangabúðunum hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á gildi kenningarinnar en ekki að rekja hörmungar fangabúðarlífsins.

Gordon W. Allport prófessor í sálarfræði skrifar formála að bókinni og segir m.a.: „Ég mæli af heilum hug með þessari bók því að hún er dramatísk frásagnarperla sem fjallar um mesta vanda mannsins. Hún hefur bókmenntalegt og heimspekilegt gildi og er nauðsynlegur inngangur að merkustu sálfræðistefnu nútímans.“ Páll Skúlason prófessor í heimspeki skrifar formála að íslensku útgáfunni og segir þar m.a.: „Að axla ábyrgð sína á hinu hverfula augnabliki lífsins og finna hvað gefur því gildi. Það er að þeim tilgangi lífsins sem við skulum leita.“

Höfundur bókarinnar Victor E. Frankl óskaði þess að höfundarlaun bókarinnar færu til málefnis sem tengdist börnum. Þann 5. janúar 2007 urðu Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan við þessari ósk og afhentu 600 þúsund krónur til Umhyggju, félags til stuðnings langveikra barna.

 

 

 

 

Höfundur: Viktor E. Frankl

Þýðandi: Hólmfríður K. Gunnarsdóttir

Útgáfuár: 2006 | Blaðsíðufjöldi: 138 | ISBN:  9979547367 | Verð: 3.215 kr.

Kaupa/Buy

 

Siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki

Siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki

Þessi bók kemur til móts við aukinn áhuga á siðfræði hjá almenningi og innan skólakerfisins. Fjallað er um siðfræðiheimspeki en einnig um raunhæf siðfræðileg vandamál sem almennt eru rædd í samfélaginu, um siðfræði í opinberu lífi, samlífs- og fjölskyldusiðfræði, siðfræði lífvísinda og lækninga, umhverfismál og málefni réttlætis og friðar á alþjóðlegum vettvangi.

Undirstöðurit handa öllum þeim sem hafa almennan áhuga á að kynna sér siðfræði.

Höfundar: Göran Bexell, Carl-Henric Grenholm.

Þýðandi: Aðalsteinn Davíðsson

Útgáfuár: 2001 | Blaðsíðufjöldi: 452 | ISBN: 9979765186 | Verð: 4.195 kr.

Kaupa/Buy

 

Siðfræði handa Amador

Faðir ræðir við son sinn um frelsið, mennskuna og hið góða líf 

„Hvernig er best að lifa? Þessi spurning þykir mér miklu safaríkari en aðrar sem hafa stórkostlegri hljóm eins og: Hefur lífið einhverja merkingu? Er lífið þess virði að lifa því? Er líf eftir dauðann? Sjáðu nú til, lífið hefur merkingu, það hefur eina merkingu: það heldur áfram, það verður ekki spólað til baka, ekki stokkað upp á nýtt eða leiðrétt eftir á. Þess vegna er nauðsynlegt að hugleiða vel hvað maður vill og veita því athygli hvað maður gerir.“ (Úr Siðfræði handa Amador.) 

Í Siðfræði handa Amador finnur Savater orðin sem við leitum öll að þegar við tölum við börnin okkar um framtíðardrauma þeirra og þær væntingar sem við höfum fyrir þeirra hönd. Hann ræðir við fimmtán ára gamlan son sinn, Amador, um siðfræði og segir honum meðal annars að hún sé ekki eingöngu fag fyrir þá sem vilja leggja stund á heimspeki í háskólum, heldur sé hún öðru fremur lífslist sem fólgin sé í því að uppgötva hvernig lifa skuli góðu lífi. 

Hér er fjallað um hina eilífu leit að hamingju, frelsi og ást, og spurningar sem spretta óhjákvæmilega af því frelsi sem maðurinn einn býr við. Það er hverjum manni hollt að hugleiða þessar spurningar með Savater sem gerir það hér á aðgengilegan og oft gáskafullan hátt. 

Þessi hrífandi og hugvitsamlega bók er bæði hugsuð og skrifuð með æskufólk í huga. Hún hefur verið gefin út í 30 löndum á 26 tungumálum og hvarvetna fengið hlýjar viðtökur; orðið metsölubók víða um Evrópu, og verið endurútgefin þrjátíu og fimm sinnum á Spáni. 

Fernando Savater er kunnastur spænskra samtímaheimspekinga. Hann hefur sent frá sér á fjórða tug bóka, skáldsögur, leikrit, heimspekirit og greinasöfn um ýmis málefni.

Höfundur: Fernando Savater

Þýðandi: Haukur Ástvaldsson

Útgáfuár: 2000 | Blaðsíðufjöldi: 201 | ISBN: 9979544066 | Verð: 1.945 kr.

Kaupa/Buy

 

 

Önnur útgáfa

 

Hugsmíðar. Um siðferði stjórnmál og samfélag

Hugsmíðar eru safn ritgerða eftir Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki, á mörkum siðfræði og stjórnmálaheimspeki. Vilhjálmur reifar hugmyndir sínar um brýnustu verkefni siðfræðinnar á okkar tímum, ræðir um vanda og verkefni lýðræðisins og greinir nokkur siðferðileg úrlausnarefni samtímans þar sem spurningar um einstaklingsfrelsi og félagslegt réttlæti eru í fyrirúmi. Flest viðfangsefnin eru sprottin úr íslensku samfélagi og höfundur færir rök fyrir því að við séum langt frá því að tileinka okkur vandaða stjórnsiði.

Meðal umfjöllunarefna bókarinnar eru:

 • Listin að lifa að fornu og nýju
 • Veikleikar íslensks lýðræðis í aðdraganda og eftirmálum hrunsins
 • Hlutverk fræðimanna í samfélagsumræðu
 • Erfðarannsóknir, lífpólitík og vísindaleg borgaravitund
 • Réttur til afskipta af fíkniefnaneyslu ungmenna
 • Frelsi fólks til að eignast börn
 • Réttlát heilbrigðisstefna
 • Ranglátt fiskveiðikerfi

Höfundur: Vilhjálmur Árnason

Útgáfuár: 2014 | Blaðsíðufjöldi: 328 | ISBN: 9935230554 |Verð: 4.395

Kaupa/Buy

 

Siðfræði lífs og dauða, 2. útgáfa

Þetta vandaða og vinsæla rit kemur nú út í nýrri og endurbættri útgáfu. Höfundur fjallar um öll helstu siðferðileg álitamál í heilbrigðisþjónustu á ítarlegan en aðgengilegan hátt.

Höfundur greinir ýmis lykilhugtök mannlegs siðferðis og leitast við að jarðtengja þau með umfjöllun um einstök vandamál sem upp koma við umönnun sjúkra og deyjandi, og við mótun heilbrigðisstefnu. Rætt er um mál á borð við þagnarskyldu, réttindi sjúklinga, rannsóknir á fólki, fósturgreiningu, fóstureyðingar, líffæraflutninga, líknardráp og réttláta heilbrigðisþjónustu.

Í þessari nýju útgáfu tekst höfundur jafnframt á við nokkrar þeirra spurninga sem erfðarannsóknir hafa vakið á undanförnum árum. Rauði þráðurinn í málflutningi Vilhjálms er krafan um að virða sjúklinginn sem manneskju. Í því skyni þurfi fagfólk í heilbrigðisþjónustu að temja sér samráð við sjúklinga, ástunda samræður sem miða að gagnkvæmu trausti.

Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut höfundur viðurkenningu Hagþenkis 1993 fyrir mikilsverð fræðastörf.

Höfundur: Vilhjálmur Árnason

Útgáfuár: 2004 | Blaðsíðufjöldi: 379 | ISBN: 9979545720 | Verð: kr.3.415

Kaupa/Buy

 

 

Eldri útgáfa

 

 • 2000 Siðferðileg álitamál eftir Salvöru Nordal
 • 2000 Hvers er siðfræðin megnug, ritstjóri Jón Á. Kalmansson
 • 1998 Umhverfing eftir Pál Skúlason
 • 1997 Stefnur og straumar í siðfræði eftir James Rachels (í þýðingu Jóns Á Kalmanssonar)
 • 1997 Fjölskyldan og réttlætið, ritstjórar Jón Á. Kalmansson, Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir
 • 1997 Broddflugur eftir Vilhjálm Árnason
 • 1996 Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor Frankl (í þýðingu Hólmfríðar K. Gunnarsdóttur)
 • 1995 Siðferði og stjórnmál, ritstjóri Jón Kalmansson
 • 1994 Náttúrusýn, ritstjórar Róbert H. Haraldsson og Þorvarður Árnason
 • 1993 Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason
 • 1993 Erindi siðfræðinnar, ritstjóri Róbert H. Haraldsson
 • 1992 Siðfræðileg álitsgerð um skilgreiningu dauða og brottnám líffæra eftir Björn Björnsson og fleiri
 • 1992 Þroskakostir eftir Kristján Kristjánsson
 • 1991 Sjö siðfræðilestrar eftir Pál Skúlason
 • 1991 Siðareglur eftir Sigurð Kristinsson
 • 1990 Siðfræði eftir Pál Skúlason
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is