Ýmis námskeið í siðfræði

 
Sagnfræði- og heimspekideild

Inngangur að siðfræði

HSP202G

Í námskeiðinu er veitt yfirlit yfir þrjár af höfuðkenningum siðfræðinnar, reist á lestri frumtexta: kenningu Aristótelesar í Siðfræði Níkomakkosar, Johns Stuarts Mill í Nytjastefnunni og Immanuels Kant í Grundvelli að frumspeki siðlegrar breytni.

 

Hagnýtt siðfræði

HSP102M

Í námskeiðinu er fjallað um tengsl fræðilegrara og hagnýttrar siðfræði t.d. á sviði heilbrigðismála og umhverfismála. Fjallað er um efni á borð við tjáningarfrelsi, líknardráp, álitamál í rannsóknum á fólki, fóstureyðingar, réttindi dýra, stöðu fátækra ríkja, siðfræði stríðs og refsingar.

 

Siðfræði náttúrunnar

HSP301G

Námskeiðið fjallar um samband manns og náttúru frá heimspekilegu sjónarhorni. Fjallað er um helstu frumkvöðla náttúrusiðfræðinnar og áhrifamestu kenningar sem settar hafa verið fram. Gerð grein fyrir ólíkri náttúrusýn manna og mismunandi grunnafstöðum til náttúrunnar - þ.e. mannhverfri, visthverfri og lífhverfri afstöðu. Einnig fjallað um tengsl umhverfis- og þróunarmála og tengsl umhverfishyggju og lýðræðisþróunar. Rætt um álitaefni eins og: Getur siðfræðin nýst við lausn umhverfisvandamála?, Hvers konar verur hafa siðferðisstöðu?, Geta náttúrleg fyrirbæri búið yfir eigingildi?, Hafa dýr einhver réttindi?, Er einhver grundvallarmunur á (af)stöðu karla og kvenna gagnvart náttúrunni?, og Hvert er siðferðilegt inntak sjálfbærrar þróunar?

 

Málstofa um starfstengda siðfræði

HSP006M

Námskeiðið er kennt annað hvert ár. Námskeiðið fjallar um siðfræði starfsstétta og það hvernig siðfræðileg vandamál mæta fólki í starfi. Fjallað er siðareglur starfstétta, fagmennsku, þagnarskylduna og trúnað við skjólstæðinga. Þá er fjallað um einstakar fagstéttir s.s. lækna, lögmenn, kennara og vísindamenn. Þetta námskeið byggir einkum á gestafyrirlesurum. Umsjón hefur Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar.

 

Heilbrigðis- og lífsiðfræði

HSP316M

Á námskeiðinu er fjallað um nokkur helstu álitamál á sviði lífsiðfræði á síðustu árum, einkum í tenglsum við þróun á sviði erfðavísinda, og erfðarannsókna og áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu.

Námskeiðið er ekki kennt á misserinu.

 

Viðskiptasiðfræði

HSP317M

Í námskeiðinu er veitt víðtækt yfirlit yfir helstu siðferðilegu álitaefni er snerta fyrirtæki og samskipti þeirra við stjórnvöld og samfélagið í heild. Námskeiðið skiptist í fjóra hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og tengsl siðferðis og markaðar. Í öðrum hluta er sjónum beint að ýmsum álitaefnum í viðskiptum, s.s. blekkingum í auglýsingum og uppljóstrunum starfsmanna. Þriðji hlutinn fjallar um starfsmannastefnu og hlutverk siðareglna í fyrritækjum. Í síðasta hlutanum er fjallað um alþjóðlegt viðskiptaumhverfi og umhverfismál.
Námskeiðið er meðal annars byggt á gestafyrirlesurum úr atvinnu- og þjóðlífi og nemendur vinna að úrlausn hagnýtra verkefna.

 

 

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Framsetning guðfræðilegrar siðfræði

GFR201G

Yfirlit yfir höfuðkenningar siðfræðinnar í guðfræði og heimspeki. Fjallað um siðfræðileg álitamál í samtímanum m.a. innar lífsiðfræði, umhverfissiðfræði og siðfræði fjölskyldunnar.

 

Kynverund siðfræði og samfélag

GFR603M

Í námskeiðinu verður fjallað um kynverund mannsins í hugmyndafræðilegu, kynfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu samhengi. Efni sótt til fræðasviða kynfræði, kynjafræði, siðfræði, guðfræði og heimspeki.

 

 

Læknadeild - sjúkraþjálfun

Inngangur að sjúkraþjálfun og siðfræði

SJÚ101G

I. Siðfræði, 40%. Fjallað verður um helstu kenningar í siðfræði, lögmál sem liggja til grundvallar mannlegum samskiptum og breytni og gagnrýna hugsun.
II. Inngangur að sjúkraþjálfun 60%. Fjallað verður um þróun sjúkraþjálfunar og starfssvið sjúkraþjálfara kynnt. Sérstök áhersla verður á fagmennsku og siðareglur

 

Félags- og siðfræði

SJÚ603G

Fjallað verður um grundvallaratriði heilsufélagsfræðinnar, heilbrigðiskerfið á Íslandi og stöðu og réttindi sjúklinga, þar með tryggingar, ferlimál, hjálpartæki og önnur málefni fatlaðra. Einnig um siðfræðilegar hliðar heilbrigðisþjónustu og hlutverk sjúkraþjálfara sem heilbrigðisstéttar.

 

 

Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

Siðfræði og fagmennska

ÞRF302G

Í þessu námskeiði er tekist á við siðferðileg álitamál sem tengjast faglegu starfi. Í byrjun er farið í skyldukenningu Kants og Nytjastefnuna og siðferðileg hugtök eins og sjálfræði, velferð, réttlæti og mannréttindi. Jafnframt er fjallað um fagmennsku, virðingu fyrir friðhelgi og megin áherslur í vísindasiðfræði. Áhersla er lögð á að tengja hina fræðilegu umfjöllun við siðferðileg álitamál í starfi þroskaþjálfa og tómstunda-og félagsmálafræðinga og fjalla þá sérstaklega um álitamál tengd t.d. fósturrannsóknum, friðhelgi,  starfi með börnum og unglingum og jafnrétti til náms og starfa svo dæmi séu tekin.

 

Siðfræði rannsókna í félagsvísindum

ÞRS201F

Í námskeiðinu er fjallað um siðfræði rannsókna almennt með sérstakri áherslu á siðferðileg álitamál tengd rannsóknum í félagsvísindum. Lögð er áhersla á umfjöllun um góða starfshætti og siðferðileg álitamál í eigindlegum rannsóknum. Helstu starfandi siðanefndir í íslensku rannsóknarumhverfi verða kynntar.

 

 

Félagsráðgjafadeild

Fagleg tengsl og siðfræði

FRG105F

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist viðtalstækni og hljóti færni í að beita henni í tengslum við meðferðarvinnu.  Nemendur æfa sig m.a. í hlutverkaleikjum (role plays) og með greiningu myndbandsupptaka.  Unnið er með sjálfstæð verkefni til að tengja fræðilega þekkingu hagnýtu starfi, skapa vitund um viðhorf, eigið gildismat og persónuþætti.  Áhersla er lögð á að nemendur öðlist þekkingu og innsæi í siðfræði hjálparstarfsins og séu undirbúnir fyrir siðferðilegar ákvarðanir og meðferð álitamála.  Tengt því er athygli beint að ábyrgð og umboði fagmannsins í opinberri þjónustu.  Þá er fjallað um skriflega þáttinn sem tæki í málsmeðferð.  Handleiðsluhugtakið er kynnt og hlutur þess í félagsráðgjöf.

 

 

Rafmagns- og tölvuverkfræðideild 

Siðfræði

KIT606G

Námskeiðinu er ætlað að veita nemendum skilning á því hvernig samfélag mannanna breytist með tæknilegum nýjungum og hvernig félagsleg og siðferðileg álitaefni tengjast tæknilegum breytingum. Tækninýjungar opna nýjar leiðir fyrir fólki og fjölga félagslegum tækifærum en geta einnig haft í för með sér óæskilegar félagslegar og umhverfislegar afleiðingar og leitt til siðferðislegra vandamála. Nemendur læra um viðfangsefnin í gegnum lestur, fyrirlestra og virkni í kennslustundum þar sem þeir munu skoða liðna og núverandi framþróun á ýmsum sviðum tæknifræðinnar og ræða um siðferðisleg og félagsleg álitamál sem þróunin hefur í för með sér.

 

 

Viðskiptafræðideild

Samningafærni og siðfræði

MBA209F

Námskeiðið miðar að því að kynna þátttakendum helstu hugtök og kenningar í samningatækni með virkri þátttöku í samningaæfingum og umræðum, auk greiningar samninga og samningaferla.
Mikilvægt er að dýpka þekkingu og skilning á samningum, samningaferlum og samningatækni, ekki hvað síst til að opna augu þátttakenda fyrir þeim tækifærum sem samningar bjóða og að auka líkurnar á að þátttakendur grípi þau tækifæri sem gefast til samninga. Útgangspunktur námskeiðsins er: Góður samningamaður leitast við að  finna leiðir til að bæta afkomu allra samningsaðila en er jafnframt vakandi fyrir því að gæta eigin hagsmuna.

 

 

Uppeldis- og menntunarfræðideild 

Margbreytileiki og samfélag: Saga, siðfræði og viðhorf

MEN0A5F

Meginviðfangsefni námskeiðsins er margbreytileiki samfélagsins og staða jaðarhópa í skóla og samfélagi. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta þar sem fyrstu tveir hlutarnir byggjast á fræðilegri umfjöllun um álitamál, sögu og siðfræði, en í þriðja hlutanum er gert ráð fyrir að nemendur beiti þeim fræðilegu undirstöðum sem lagðar hafa verið í fyrstu tveim hlutunum til að skoða vettvang, eigið starf og eigin viðhorf.

 

 

Sálfræðideild

Siðareglur - Siðfræði fags

SÁL232F

Lög og reglur sem sálfræðingar þurfa að kunna skil á í starfi. Siðareglur sálfræðinga. Samskipti og stjórn á vinnustöðum. Grundvallaratriði í samtalstækni.

 

 

Íslensku- og menningardeild

Samtímalistfræði: Siðfræði og myndlist

LIS003F

Í námskeiðinu verða kynntar og ræddar helstu kenningar í siðfræði og listfræði á síðustu áratugum. Leitast verður við að greina hvernig hugmyndir um tengsl myndlistar og siðferðis hafa áhrif á listsköpun jafnt sem umræðu og skrif um myndlist. Skoðaðar eru kenningar sem upprunnar eru í öðrum greinum hugvísinda og beita má á myndlist og sjónræna menningu. Einnig verður fjallað um nýja stöðu listarinnar í heimsvæddu samhengi og um tengsl myndlistar og listmarkaðar. Lesnar eru valdar greinar, bæði frumtextar og skýringatextar, sem sýna mismunandi áherslur í listfræðilegum rannsóknum á myndlistarsviðinu síðustu áratugi.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is