Header Paragraph

Gervigreind, siðferði og samfélag

Image

 

Háskóli Íslands, Siðfræðistofnun og landsnefnd UNESCO á Íslandi stóðu fyrir opnu málþingi um siðferðilegar og samfélagslegar áskoranir sem fylgja hraðri þróun gervigreindartækni og hagnýtingu hennar á ólíkum sviðum. Málþingið, sem bar yfirskriftina Gervigreind, siðferði og samfélag fór fram mánudaginn 5. júní í Veröld húsi Vigdísar. Lilja Alfreðdsóttir, menningar og viðskiptaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávörpuðu málþingið en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti lokaorð.

Notkun gervigreindartækni er orðin útbreidd og snertir daglegt líf okkar með margvíslegum hætti. En viðbúið er að framfarir á þessu sviði muni hafa víðtæk og djúpstæð áhrif á samfélög á komandi árum. Tæknin vekur vonir um mikinn ávinning, t.d. framfarir í læknavísindum og lyfjaþróun, aukna skilvirkni og meiri hagsæld. En hún vekur jafnframt ótal áleitnar og flóknar siðferðilegar spurningar, svo sem varðandi jafnrétti og mismunun, persónuvernd og einstaklingsfrelsi, lýðræðismenningu, samþjöppun valds og efnahagslega misskiptingu.

Í nóvember 2021 samþykktu 193 aðildarríki á aðalráðstefnu UNESCO Tilmæli um siðferði gervigreindar, þar sem mörkuð voru, í fyrsta sinn, alþjóðlega viðurkennd siðferðileg viðmið um þróun og nýtingu gervigreindartækni og lagður grunnur að leiðarvísi fyrir ábyrga stefnumótun um efnið. Tilmælin hafa það meginmarkmið að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn og stuðla að því að hin nýja tækni verði notuð í þágu alls mannkyns.

Á málþinginu var leitast við að varpa ljósi á viðfangsefnið úr ólíkum áttum: Frá sjónarhóli siðfræðinnar og tölvunarfræði, útfrá notkun tækninnar í atvinnulífi með hliðsjón af mannauðstjórnun og fjölbreytileika, hagnýtingu gervigreindar í kennslu og í ljósi persónuverndarsjónarmiða. Að erindum loknum fóru fram umræður en pallborð skipuðu fulltrúar atvinnulífs, launþegahreyfingar, neytenda og stjórnvalda.

 

Hér má nálgast upptöku frá málþinginu í heild sinni.

 

Dagskrá:

13.00  – 13.10 Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, setur málþingið

13.10 – 13.20 Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytur ávarp

13.20 – 13.40 Páll Rafnar Þorsteinsson, verkefnisstjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands

Gervigreind og mannlegt siðferði: Raunverulegar áskoranir

13.40 – 14.00 Yngvi Björnsson, prófessor við Tölvunarfræðideild HR

Útskýranleg gervigreind: hvað er það og hvers vegna?

14.00 – 14:20 Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands

Notkun gervigreindar við stjórnun og nýráðningar. Áskoranir samtímans.

Kaffi

14.40 – 14.55 Hafsteinn Einarsson, lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands

Hagnýting á gervigreind í kennslu.

14.55 – 15:10 Sigyn Jónsdóttir, CTO hjá Empower

Að samtvinna gervigreind og fjölbreytileika

15:10 – 15.25 Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar

Persónuvernd og gervigreind

15:25 Pallborð með þátttöku fyrirlesara og Páls Ásgeirs Guðmundssonar, forstöðumaður efnahags- og samkeppnishæfnisviðs SA, Breka Karlssonar, formaður Neytendasamtakanna

16:00 – 16:15 Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, flytur lokaorð