Leitin að tilgangi lífsins

Bókin Leitin að tilgangi lífsins, sem verið hefur uppseld hjá útgefanda um nokkurt skeið, hefur verið gefin út aftur með breyttu útliti. Bókin kom út á vegum Siðfræðistofnunar og Háskólaútgáfunnar í þýðingu Hólmfríðar Gunnarsdóttur árið 1996.

Höfundur bókarinnar Viktor E. Frankl (1905-1997) var austurrískur geðlæknir. Hann var upphafsmaður kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía eða tilgangsmeðferð. Þar er lögð áhersla á að í lífi sérhvers manns sé einstakur tilgangur sem hver og einn verði að finna fyrir sjálfan sig.

Frankl sat í fangabúðum nasista og notar reynslu sína úr fangabúðunum sem undirstöður kenninga sinna. Frásögnin úr fangabúðunum hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á gildi kenningarinnar en ekki að rekja hörmungar fangabúðarlífsins.

Gordon W. Allport prófessor í sálarfræði skrifar formála að bókinni og segir m.a.:

„Ég mæli af heilum hug með þessari bók því að hún er dramatísk frásagnarperla sem fjallar um mesta vanda mannsins. Hún hefur bókmenntalegt og heimspekilegt gildi og er nauðsynlegur inngangur að merkustu sálfræðistefnu nútímans.“

Páll Skúlason prófessor í heimspeki skrifar formála að íslensku útgáfunni og segir þar m.a.:

„Að axla ábyrgð sína á hinu hverfula augnabliki lífsins og finna hvað gefur því gildi. Það er að þeim tilgangi lífsins sem við skulum leita.“

Höfundur bókarinnar Victor E. Frankl óskaði þess að höfundarlaun bókarinnar færu til málefnis sem tengdist börnum.

Þann 5. janúar 2007 urðu Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan við þessari ósk og afhentu 600 þúsund krónur til Umhyggju, félags til stuðnings langveikra barna.

Höfundur: Viktor E. Frankl

Þýðandi: Hólmfríður K. Gunnarsdóttir

Útgáfuár: 2006 | Blaðsíðufjöldi: 138 | ISBN: 9979547367

Image
Leitin að tilgangi lífsins, bókakápa