Siðfræði handa Amador

Faðir ræðir við son sinn um frelsið, mennskuna og hið góða líf

„Hvernig er best að lifa? Þessi spurning þykir mér miklu safaríkari en aðrar sem hafa stórkostlegri hljóm eins og: Hefur lífið einhverja merkingu? Er lífið þess virði að lifa því? Er líf eftir dauðann? Sjáðu nú til, lífið hefur merkingu, það hefur eina merkingu: það heldur áfram, það verður ekki spólað til baka, ekki stokkað upp á nýtt eða leiðrétt eftir á. Þess vegna er nauðsynlegt að hugleiða vel hvað maður vill og veita því athygli hvað maður gerir.“ (Úr Siðfræði handa Amador.)

Í Siðfræði handa Amador finnur Savater orðin sem við leitum öll að þegar við tölum við börnin okkar um framtíðardrauma þeirra og þær væntingar sem við höfum fyrir þeirra hönd.

Hann ræðir við fimmtán ára gamlan son sinn, Amador, um siðfræði og segir honum meðal annars að hún sé ekki eingöngu fag fyrir þá sem vilja leggja stund á heimspeki í háskólum, heldur sé hún öðru fremur lífslist sem fólgin sé í því að uppgötva hvernig lifa skuli góðu lífi.

Hér er fjallað um hina eilífu leit að hamingju, frelsi og ást, og spurningar sem spretta óhjákvæmilega af því frelsi sem maðurinn einn býr við.

Það er hverjum manni hollt að hugleiða þessar spurningar með Savater sem gerir það hér á aðgengilegan og oft gáskafullan hátt.

Þessi hrífandi og hugvitsamlega bók er bæði hugsuð og skrifuð með æskufólk í huga.

Hún hefur verið gefin út í 30 löndum á 26 tungumálum og hvarvetna fengið hlýjar viðtökur; orðið metsölubók víða um Evrópu, og verið endurútgefin þrjátíu og fimm sinnum á Spáni.

Fernando Savater er kunnastur spænskra samtímaheimspekinga. Hann hefur sent frá sér á fjórða tug bóka, skáldsögur, leikrit, heimspekirit og greinasöfn um ýmis málefni.

Höfundur: Fernando Savater

Þýðandi: Haukur Ástvaldsson

Útgáfuár: 2000 | Blaðsíðufjöldi: 201 | ISBN: 9979544066

Image
Siðfræði handa Amador, bókarkápa