Header Paragraph

Aðstæðubundið sjálfræði: Málþing um sjálfræði í lífi fólks með þroskahömlun

Image

Í tilefni af útkomu bókarinnar Aðstæðubundið sjálfræði: Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun, stóðu Siðfræðistofnun og Menntavísindasvið Háskóla íslands fyrir málþingi í samstarfi við Landssamtökin Þorskahjálp. Málþingið fór fram í húsakynnum Menntavísindasvið við Stakkahlið og var húsfyllir.

Bókinni Aðstæðubundið sjálfræði: Líf og aðstæður fólks með þroskahömlu er ætlað að lýsa hugmyndum sem gætu stuðlað að auknu sjálfræði þessa hóps og aukið skilning á mikilvægi þess að þau fái viðeigandi aðstoð til að taka sjálf ákvarðanir um eigið líf eins og þeim ber réttur til. Spurt er spurninga eins og: Hverju vill fólk með þroskahömlun ráða í eigin lífi? Hvað með réttinn til að stunda háskólanám? Hvernig má stuðla að bættu kynheilbrigði fólks með þroskahömlun? Hvernig má hindra nauðung og þvinganir á heimilum þess?

Bókin, sem gefin er út af Háskólaútgáfunni, var tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Ritstjórar bókarinnar eru Ástríður Stefánsdóttir, Guðrún V. Stefánsdóttir og Kristín Björnsdóttir. (Hægt er að kaupa einstaka kafla eða bókina í heild sinni á vef Háskólaútgáfunnar).

Á málþinginu kynntu Ástríður Stefánsdóttir, dósent í hagnýtri siðfræði, og Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði, rannsóknir sem liggja bókinni til grundvallar. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, doktorsnemi og starfsmaður Þroskahjálpar, fjallaði á gagnrýninn hátt um bókina í erindi sem bar yfirskriftina “Virði rannsókna um líf fatlaðs fólks”. Þá fluttu þrír nemendur á Menntavísindasviði, þau Hekla Hólmarsdóttir, Ásgeir Arnarsson og Nína Ingimarsdóttir erindið „Okkar líf, okkar ákvarðanir!“. Loks fóru fram pallborðsumræður um efnið. Í pallborði sátu: Ólafur Snævar Aðalsteinsson fulltrúi Átaks félags fólks með þroskahömlun, Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Ástríður Stefánsdóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir. Umræðum stýrðu Magnfríður Jóna Kristjónsdóttir nemandi og Kristín Björnsdóttir prófessor á Menntavísindasviði.

 

Hér má sjá upptökur af erindum: