Hvað einkennir íslenskt lýðræði? Starfsvenjur, gildi og skilningur

Þegar Alþingi skipaði sérstaka rannsóknarnefnd til þess að fjalla um aðdraganda og orsakir að falli íslensku bankanna árið 2008 var einnig skipaður sérstakur starfshópur til þess að fjalla um siðferði og starfshætti í tengslum við þessa atburði.

Helstu niðurstöður starfshópsins draga fram:

  • veikleika í lýðræðislegum innviðum samfélagsins 
  • andvaraleysi hjá stjórnsýslu og eftirlitsstofnunum
  • óvönduð vinnubrögð stjórnmálamanna og fjölmiðla.

Starfshópurinn lagði ákveðinn grunn að fræðilegri greiningu á þessum vandamálum en það er markmið þessa verkefnis að dýpka greininguna á lýðræðislegum innviðum íslensks samfélags enn frekar.

Image
""

Í verkefninu eru íslenskar lýðræðishugmyndir, ríkjandi skilningur, starfsvenjur og gildi, rannsakaðar út frá þrískiptingu Habermas á frjálslyndu, lýðveldissinnuðu og rökræðumiðuðu lýðræði. Tilgátan er sú að íslensk stjórnmálasaga frá lýðveldisstofnun byggi á blöndu af frjálslyndum og lýðveldissinnuðum skilningi á lýðræði. Rökræðumiðaður skilningur hafi á hinn bóginn verið sniðgenginn og það geti skýrt margt af því sem stendur íslensku lýðræði fyrir þrifum bæði fyrir og eftir hrun fjármálakerfisins.
 

Verkefnið byggir á þverfaglegri nálgun, sem sækir  meðal annars til:

  • siðfræði
  • stjórnmálafræði 
  • stjórnsýslufræði
  • fjölmiðlafræði og kenningum um lýðræðismenntun.

Rannsókninni er ætlað að greina bæði þau ferli sem voru hvað mest áberandi í stjórnmálum og stjórnsýslu fram að falli bankanna og þá félagslegu og stjórnmálalegu kreppu sem fylgdi í kjölfarið.
 

Sjá einnig skýrslu rannsóknarnefndarinnar á heimasíðu Rannsóknarnefndar Alþingis