Header Paragraph

Minningarfyrirlestur Páls Skúlasonar 2023

Image
Mynd_Páll_Skúlason

Minninarfyrirlestur Páls Skúlasonar er haldinn ár hvert á vegum Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands í minningu Páls Skúlasonar, rektors og prófessors í heimspeki, sem jafnframt var hvatamaður að því að Siðfræðistofnun var komið á legg og þjónaði sem formaður stjórnar stofnunarinnar fyrstu starfsár hennar. Fyrirlesari að þessu sinni er Ástríður Stefánsdóttir, dósent í hagnýtri siðfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Fyrirlestur hennar ber yfirskriftina Samtal um læknisfræðina og fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands fimmtudaginn 25. maí kl. 16:00.

 

Samtal um læknisfræðina

Læknisfræðin hefur tilhneigingu til að þenjast út sem endurspeglast í umræðu um forgangsröðun, sjúkdómsvæðingu, oflækningar og sjálfbærni heilbrigðisþjónustunnar. Þrátt fyrir að ný verkefni og útvíkkun á sviði hennar geti verið umdeild er þó einnig nauðsynlegt að hún þróist og þjóni okkur í nýjum aðstæðum. Vandinn er að meta hvenær ný verkefni eru með réttu læknisfræðileg og hvenær ekki? Til að sýna hvernig þessi vafi getur birst verður fjallað um stöðu læknisfræðinnar gagnvart feitu fólki. Annars vegar má hér sjá offitu sem sjúkdóm sem rétt er að beita læknisfræðilegum ráðum til að lækna. Hins vegar telja sumir þetta vera dæmi um sjúkdómsvæðingu á lífi feits fólks þar sem inngrip læknisfræðinnar hafi fremur verið skaðleg en að þau hafi verið til gagns. Þótt ekki leiki vafi á því að læknisfræðileg inngrip gegn offitu geti verið gagnleg þá sýnir umfjöllunin einnig hvernig nálgun læknisfræðinnar getur aukið á stimplun jaðarsetts hóps í samfélaginu og þannig valdið nýjum skaða. Til að vinna gegn þessu og skilja betur mörk læknisfræðinnar er mikilvægt að halda á lofti tilgangi hennar og þeim siðferðilega grunni sem hún hvílir á. Ef það er ekki gert getur skilningur okkar á henni breyst og hún þróast út í andhverfu sína þar sem hún verður skaðleg og þá ekki síst þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.

 

Texti

Ástríður Stefánsdóttir er dósent í hagnýtri siðfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og sat í stjórn Siðfræðistofnunar um árabil. Hún hefur ritað fjölda fræðigreina um siðferðileg efni og er m.a. einn ritstjóra bókarinnar Aðstæðubundið sjálfræði: Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni haustið 2022. Síðastliðið vor varði Ástríður doktorsritgerð sína Exploring the Meaning of Medicine: A Reflection Upon Three Key Examples og byggir hún erindi sitt á efni hennar.

Mynd
Image
Mynd af Ástríði Stefánsdóttur